top of page

Í febrúar - mars 2011 ákváðu aðilar á Snæfellsnesi að vinna saman að því að kanna hvort það væri álitlegur kostur að stofna svæðisgarð á Snæfellsnesi og hvaða aðferðafræði væri heppilegust til slíks. 

Stýrihópur, skipaður fulltrúum aðila, skilaði af sér í septemberbyrjun 2011. Afrakstur vinnu hópsins var m.a. verkefnisáætlun um mótun og stofnun svæðisgarðs. Auk þess var á vegum stýrihópsins safnað saman upplýsingum sem birtast á þessum vef. 

Ráðgjafarfyrirtækið Alta hafði kynnt aðilum í atvinnulífi og sveitarfélögunum á Snæfellsnesi þessa hugmynd eftir ítarlega skoðun á þróun svæðisgarða og hvernig þeir hafa stuðlað að og stutt við atvinnuuppbyggingu á svæðum þar sem markvisst og vel hefur verið að verki staðið. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú að svæðisgarðar gætu fallið vel að samfélagslegum og landfræðilegum aðstæðum hér á landi, þar sem sérstaða er skýr og að þeir geti átt þátt í að styrkja þróun byggðarlaga með aukinni og fjölbreyttari atvinnustarfsemi.

Ávinningur

 

Þegar upplifunin rís yfir væntingum ...

 
Ávinningur af svæðisgarði

 

Svæðisgarður getur haft margvíslegan ávinning, auk þess sem þegar hefur verið rakið:

Aðdráttarafl og sérstaða er skýr - og verður að vera einstök. Á því byggir allt starf, uppbygging og miðlun. 

Aðilar innan svæðisgarðsins á Snæfellsnesi munu vita betur hver af öðrum og eiga þannig auðveldara með samstarf og að taka tillit til þarfa hvers annars.

  • Svæðisgarðurinn fær samræmda ímynd út á við og inná við. Auk þess er innan svæðisins góður skilningur á forsendum ímyndar og viðhaldi hennar.

  • Greinarbetra yfirlit liggur fyrir um sérstöðu Snæfellsness, mögulega afþreyingu og þjónustu en nú er. Viðhald og endurnýjun er tryggð til framtíðar.

  • Auðveldara verður að miðla sérstöðu Snæfellsness og aðdráttarafli fyrir framleiðslufyrirtæki og þjónustuaðila.

  • Margvíslegar athuganir, skýrslur, verkefni og áætlanir sem þegar eru fyrir hendi nýtast sem efniviður í forsendur svæðisgarðsins og með honum fæst mikilvæg samþætting og heildarmynd.

  • Afurðir, sem framleiddar eru á Snæfellsnesi og þjónusta sem í boði er og uppfyllir tiltekin viðmið, getur fengið vörumerki svæðisgarðsins, sem verður um leið gæðamerki hans.

  • Svæðisgarðurinn er vettvangur samtals og samráðs þeirra sem innan hans starfa.

  • Ákvarðanataka og stjórnun málefna svæðisgarðs er að öllu leyti á höndum heimamanna.

  • Fjármögnun vegna stofnsetningar og rekstrar dreifist á marga aðila og verður því léttari en ella. 

 

Í Sviss er áætlað að hver franki sem varið er til svæðisgarðs skili 3 - 7 frönkum til baka í hagkerfið innan garðsins. Þar að auki má lesa milli línanna af reynslu Svisslendinga að það skiptir máli að vera fyrstur. Með því að vera í forystu á þessu sviði aukast samkeppnisyfirburðir svæðisgarðsins, bæði yfir aðra garða en ekki síður svæði sem ekki hafa slíkt skipulag.

Virðisaukinn

 

Svæðisgarðarnir sjálfir eru yfirleitt ekki stórir vinnuveitendur, heldur nýta þeir þá innviði sem fyrir eru á svæðinu og tengja betur saman. Í  nýjum svæðisgarði í Noregi eru til dæmis tvö stöðugildi. 

Virðisaukinn felst eins og fyrr segir í því samstarfi sem komið er á laggirnar, þar sem unnið er að sama marki. 

 

Virðisauki svæðisgarðsins í efnahagslegu tilliti felst meðal annars í:

  • Markvissum leiðbeiningum sem unnt er að miðla til gesta garðsins um hvaða upplifun, þjónustu og vörur er þar að sækja, í gegnum samræmt og öflugt markaðsstarf og sameiginlega miðlun á tilteknum sviðum.

  • Að miðla upplýsingum til gesta og annarra viðskiptavina á markvissan hátt á nokkrum tungumálum s.s. í gegnum öflugan vef og aðra samfélagsmiðla, s.s. facebook og twitter.

  • Að skapa grunn fyrir þróunarverkefni á fjölmörgum sviðum sem tengjast starfsemi svæðisgarðsins og vöruþróun. Það er meðal annars gert með virkum samstarfsverkefnumeða samstarfsvettvangi, námskeiðshaldi o.fl. Sem dæmi má nefna námskeið um um gestgjafahlutverkið og hvernig því verði sem best sinnt. 

  • Að byggja upp "lógó" og vörumerki um leið og jarðvegur er skapaður fyrir öflugt þróunarstarf á sviði þjónustu og vöruhönnunar á fjölbreyttum sviðum. Vörur tengjast gjarnan frumframleiðslugreinum á hverjum stað svo sem landbúnaði og sjávarútvegi og handverki og þróun þeirra fyrir markaði innan svæðisgarðs og utan.

  • Tekið skal fram að það þarf ekki að vera í höndum svæðisgarðsins sjálfs að framkvæma allt þetta á eigin spýtur, heldur að skapa umgjörðina, útvega "verkfærin" og hvetja til þess að þau séu nýtt.  

bottom of page