top of page

Svæðisgarðar eru til í mörgum löndum og eiga sér víða áratuga sögu. Rætur þeirra liggja einkum í Englandi, Frakklandi og Þýskalandi eftirstríðsáranna, þegar fyrstu svæðisgarðarnir voru stofnaðir. 

Hugmyndafræði þeirra hefur síðan breiðst út og svæðisgarðar verið settir á laggirnar í fleiri löndum, eins og til dæmis Austurríki og Sviss og nú allra síðustu árin í Noregi, þar sem þessi lönd hafa séð tækifæri í að nýta sér landgæði og menningu til verðmætasköpunar. Samhliða þessu hafa verið þróuð vörumerki eða félagsmerki fyrir hvern svæðisgarð, sem þeir aðilar geta nýtt sem bjóða sértæka vöru eða þjónustu sem uppfyllir tilteknar gæða- og umhverfiskröfur. Það sem við höfum kosið að nefna svæðisgarð á íslensku er á erlendum tungumálum t.d. nefnt regional park, nature park, naturpark, landskapspark, regional nature park eða parcs naturel regionaux, eða t.d. area of outstanding natural beauty eins og Bretar nefna hluta slíkra svæða. 

Þótt blæbrigðamunur sé á nafngiftum og lagaumhverfi og útfærsla sé með ýmsum hætti eftir löndum og svæðum, þá eiga þessir garðar það allflestir sameiginlegt að hafa stuðlað að aukinni velsæld. Skapast hefur frjór jarðvegur fyrir íbúa, fyrirtæki og stjórnvöld og upp úr honum hafa sprottið margvísleg atvinnutækifæri.

Af erlendum svæðisgörðum má margt læra. Í Evrópu byrjaði vakningin fyrir alvöru á sjötta og sjöunda áratuginum.  Hér fyrir neðan er listi yfir nokkra svæðisgarða og tengingar við vefi þeirra. Þannig er auðvelt að "heimsækja" þá og kanna hvað hver og einn hefur fram að færa.

Noregur 

Í Noregi hafa verið stofnaðir fjórir svæðisgarðar; Valdres natur- og kulturpark, Nærøyfjorden sem einnig er "verdsarvpark" á heimsminjaskrá Unesco, Telemarkskanalen regionalpark og Regionalpark Haldenkanalen. Einnig hafa verið stofnaðir landslagsgarðar í Hörðalandi.  Óhætt er að segja að síðastliðin ár hafi orðið vakning meðal Norðmanna um kosti svæðisgarða og þeir hafa verið duglegir að yfirfæra þekkingu um stofnun og starfsemi erlendra svæðisgarða og aðlaga sínum aðstæðum á afar áhugaverðan hátt. 

 

Vegna þessa áhuga hafa samtök grenndar- og svæðisgarða í Noregi verið stofnuð og eru þau á könnu þriggja ráðuneyta sem vinna einnig að reglugerð og viðmiðum fyrir stofnun svæðisgarða þar í landi. Áhugi Norðmanna á svæðisgörðum helst víða í hendur við staðfestingu á evrópska landslagssáttmálanum. 

Nánari upplýsingar um svæðisgarða í Noregi má finna á: http://parknytt.wordpress.com/ 

Norsk stjórnvöld hafa einnig metið reynsluna af stofnun fyrstu svæðisgarðanna svo að þar sé á ferðinni áhugaverð nálgun í byggða- og atvinnuþróun. Árin 2012 og 2013 lögðu norsk stjórnvöld fram 10 millj. NOK (rúmlega 200 millj. ísl. króna) hvort ár, til að styðja enn frekar við stofnun og þróun svæðisgarða og verðmætasköpun þar. Sjá frétt um það á vef norska kommunal- og regionaldepartementet og orð ráðherrans þar um og viðtal við ráðherrann frá því í júlí 2013.

Sviss 

Svæðisgarðar voru kynntir til sögunnar í kjölfar lagasetningar árið 2007. Markmið þeirra var, líkt og víða, að standa vörð um og tryggja framþróun landslags og dreifðari byggða. Í svissneskum lögum eru svæðisgarðar skilgreindir sem "garður sem er mikilvægur á landsvísu." Þeim er einnig tryggt fjármagn, eigið vörumerki og þátttaka í samtökum garða í Sviss. Til að hljóta samþykki sem svæðisgarður verða þeir að gangast undir ítarlega landkosta- og sérstöðugreiningu og uppfylla önnur skilyrði. Svæðisgarðar í Sviss verða að ná yfir a.m.k. 100 km2 svæði og hafa innan sinna vébanda náttúru- og menningarverðmæti hvort sem þau falla undir verndarflokka eður ei.

Hægt er að lesa nánar um svæðisgarða í Sviss hér.

Frakkland 

Elstu svæðisgarðarnir í Frakklandi eru stofnaðir í kringum 1966. Í fyrstu var áherslan mestmegnis á byggðaþróun en hefur nú þróast meira í átt að náttúruvernd. Svæðisgarðar í Frakklandi eru í dag 48 talsins.

 

Umhverfisráðuneytið getur eitt úthlutað nafngiftinni svæðisgarður eftir að svæðið hefur uppfyllt ákveðin skilyrði. Svæðisgarðar byggja ávallt á sjálfbærri þróun, eru staðsettir í dreifbýli, þar sem arfleifð landslags, hið náttúrulega umhverfi og menning (t.d. verkkunnátta eða tækni) eru í aðalhlutverki, en þar sem jafnvægi milli þessarra þriggja þátta er e.t.v. fallvalt. 

Það er mikið lagt upp úr því að svæðisgarðar þrói trúverðugt vörumerki sem styður við framleiðslu í heimabyggð. 

Sumir svæðisgarðar ná einungis yfir eitt sveitarfélag, önnur yfir mörg (t.d. nær svæðisgarðurinn í Lorraine yfir 188 sveitarfélög). Svæðisgarðar teygja sig yfir 13% lands í Frakklandi, 3.900 sveitarfélög, 7.000.000 ha lands og 3 milljónir íbúa.

Bretland 

Í Bretlandi ganga svæðisgarðar undir heitinu "Areas of Outstanding Natural Beauty (AONBs)" eða "Regional Parks". Bretar voru með fyrstu þjóðum í Evrópu til að setja lög sem höfðu að markmiði að tryggja aðgang almennings að útivistarsvæðum og náttúru. Þessi lög eru nátengd byggðaþróun sem gegnir lykilhlutverki í svæðisgörðum þar í landi. Rekstur og umsjón svæðisgarða er á hendi sveitarfélaga, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga sem svæðið byggja. 

Í Bretlandi á svæðisgarður (e. Regional Park) sér ekki stoð í skipulagslögum líkt og AONBs þó þau svæði falli einnig undir skilgreiningu svæðisgarða. Þar sem um "Regional Park" er að ræða hefur hugtakið verið notað til að skilgreina aðgreint og fjölbreytt svæði þar sem stjórnun og skipulag getur haft með sér verulegan efnhagslegan, umhverfislegan og félagslegan ávinning. Slíkur svæðisgarður er því fyrst og fremst hreyfiafl til að hrinda í framkvæmd verkefnum sem byggja á þeim gæðum og tækifærum sem svæðið býr yfir. Það er undir hverjum svæðisgarði komið að þróa sína eigin skilgreiningu og framtíðarsýn byggða á staðbundnum séreinkennum og þörfum. 

Hér má lesa meira um AONBs: http://www.aonb.org.uk/ 

Þýskaland og Austurríki

Líkt og í Bretlandi var megintilgangur svæðisgarða í Þýskalandi að standa vörð um mikilvægt landslag og útivistarsvæði til að mæta þörfum sívaxandi fólksfjölda. Síðar hafa svæðisgarðarnir einnig gegnt því hlutverki að stuðla að sjálfbærri þróun dreifðari byggða með því að styðja við sjálfbæran landbúnað og framleiðslu staðbundinna vara. Nágrannargarðarnir í Austurríki hafa auk þessa stutt dyggilega við kennslu og rannsóknir. Það vekur athygli að byggðarþróunaráætlun Evrópusambandsins, LEADER, hefur sterka tengingu við svæðisgarða í Þýskalandi og Austurríki en helmingur allra LEADER svæðanna í Austurríki eru einnig svæðisgarðar, oft undir sameiginlegri stjórn.

Í dag eru um 103 svæðisgarðar í Þýskalandi og um 47 í Austurríki.   

 

Vefsíða samtaka svæðisgarða í Þýskalandi og í Austurríki.

bottom of page