Svæðisgarðurinn Snæfellsnes verði fyrirmynd fyrir önnur svæði
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsnes, hafa undirritað samning um stuðning við áframhaldandi þróun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes er samstarfsvettvangur sveitarfélaga og atvinnulífs á svæðinu og stuðlar að efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum ávinningi heimafólks á Snæfellsnesi.
Með samningnum er lögð áhersla á að unnið verði að því að draga fram ávinning af svæðisgörðum og hvernig svæðisgarðurinn á Snæfellsnesi geti nýst sem fyrirmynd fyrir önnur svæði á landinu. Við lok samnings liggur fyrir skýrsla um svæðisgarða og hvernig þeir geta stuðlað að jákvæðri byggðaþróun.
Samningurinn er gerður með vísan í fjárlög fyrir árið 2021 þar sem veitt var 15 milljón króna framlag til svæðisgarðsins í því skyni að styrkja sameiginlega framtíðarsýn sveitarfélaga og fleiri aðila á svæðinu í tengslum við svæðisskipulag Snæfellsness. Jafnframt er vísað til þingsályktunar nr. 24/148 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024, þar sem sveitarfélög eru hvött til samstarfs um gerð svæðisskipulags til að marka sameiginlega stefnu um málefni sem varða sameiginlega hagsmuni.
Comments