top of page

Kanna möguleika Svæðisgarðs Snæfellsness að komast á lista UNESCO sem Maður og lífhvolfssvæði



Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, og formaður stjórnar Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi, Björg Ágústsdóttir, undirrituðu í dag samkomulag í gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki um forathugun á að landsvæði svæðisgarðsins verði í framtíðinni tilnefnt til UNESCO sem svo nefnt Maður og lífhvolfssvæði (e. Man and Biosphere). Verkefnið hefur verið í undirbúningi undanfarið ár og ráðgert er að því ljúki í vor.

Verkefnið sem skrifað var undir í dag felur í sér að kanna, kortleggja og safna saman upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru talin til þess að meta kosti og galla við að tilnefna landsvæði Svæðisgarðsins til verkefnisins, m.a. kortlagningu mögulegrar svæðisskiptingar og afmörkun svæðisins. Svæðisgarðurinn tekur til fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi sem svæðisskipulag Snæfellsness nær til og tekur eingöngu til landsins, en ekki hafsvæðisins þar fyrir utan.

Í kjölfar forathugunar skapast færi á að skoða og meta, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem fer með málefni UNESCO hér á landi, hvort farið verði í að tilnefna svæðið til UNESCO sem Maður og lífhvolfssvæði.

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa lengi lagt ríka áherslu á samstarf og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum samfélagsins. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var stofnaður af sveitarfélögunum fimm, frjálsum félagasamtökum og hagsmunaaðilum í atvinnulífi árið 2014. Svæðisgarðurinn er farvegur fyrir samstarf á svæðinu og byggir á sameiginlegri sýn á hagnýtingu og verndun svæðisins, sem sett er fram í Svæðisskipulagi Snæfellsness. Að auki hefur Snæfellsnes hlotið umhverfisvottun EarthCheck fyrir samfélög í rúman áratug. Vottunin er staðfesting á því að sveitarfélögin vinna að bættri frammistöðu í umhverfis- og samfélagsmálum og er hún endurnýjuð árlega með óháðu mati vottunaraðila.

Í dag eru 714 svæði í 129 löndum um allan heim skráð sem Maður og lífhvolfssvæði og ná sum þessara svæða þvert á landamæri ríkja. Verkefnið var sett á laggirnar árið 1971 og miðar að því að styrkja vísindalegan grundvöll og tengsl milli fólks og umhverfis. Markmiðið með Maður og lífhvolfssvæðum er að tengja saman náttúru- og félagsvísindi við efnahagsmál, vísindarannsóknir og menntun í þeim tilgangi að bæta afkomu manna, jafna skiptingu náttúrulegra gæða og vernda vistkerfi. Lögð er áhersla á skynsamlega og sjálfbæra nýtingu og verndun náttúru og auðlinda lífhvolfssvæða (e. Biosphere) og að bæta þannig samband manna við umhverfi sitt.

Þá er með alþjóðlegu kerfi lífhvolfssvæða miðað að því að ákvarða og meta breytingar á lífhvolfinu af völdum manna og náttúrulegra atburða og áhrif slíkra breytinga á menn og umhverfi, meðal annars í tengslum við loftslagsbreytingar.

,,Það er í góðu samræmi við þær áherslur í umhverfismálum sem lagðar hafa verið á Snæfellsnesi um langa hríð að skoða fýsileika þess að taka þátt í þessu spennandi UNESCO-verkefni. Komi til þess þá yrði Svæðisgarðurinn á Snæfellsnesi fyrsta slíka svæðið hérlendis. Með þátttöku í verkefninu geta skapast mikil tækfæri fyrir samfélagið á Snæfellsnesi sem hefur í árhundruð lifað í góðu jafnvægi við náttúruna. Ég hlakka því til að sjá niðurstöður forathugunarinnar á komandi vori“, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritunina í dag.

Comments


Featured Posts
Recent Posts
Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page