Gestastofa Snæfellsness
Svæðisgarðurinn Snæfellsnes í samstarfi við Eyja- og Miklaholtshrepp hafa ákveðið að koma upp og opna Gestastofu Snæfellsness í félagsheimilinu Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi.
Meginmarkmið með opnun gestastofu við aðalaðkomuleiðina inn á Snæfellsnes er að ná til sem flestra ferðamanna sem leggja leið sína á Snæfellsnes og miðla til þeirra upplýsingum, þekkingu og ferðaráðgjöf til að auka öryggi, upplifun og ánægju bæði gesta og íbúa svæðisins og vernda landið.
Upplýsingagjöfin mun miða að því að stýra umferð um svæðið á þá staði sem þola ágang og umferð, og eru öruggir fyrir ókunnuga. Markiðið er að veita upplýsingar til að beina fólki á þá náttúru-, menningar- og þjónustustaði sem eru aðgengilegir og bjóða upp á eftirsóknarverða upplifun sem fellur að væntingum og auðga upplifun gesta, en áherslan verður á þá staði þar sem aðstaða og/eða þjónusta er til staðar. Einnig verður lögð áhersla á að byggja upp samstarf og gagnvirkt tengslanet milli allra þeirra aðila sem veita þjónustu og upplýsingar á Snæfellsnesi. Þannig byggi upplýsingagjöf og leiðsögn á staðkunnáttu og gæðum, raunupplýsingum líðandi stundar hvað varðar veður, færð, fjölda og þolmörk á hverjum stað þegar verið er að vísa fólki til vegar.